Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

En ég hljóp svo hratt...

...að ég hrasað'og datt. Villi Vill. Gott lag. Góður texti. Sorglegur texti sem kemur samt með vonarneista í síðasta erindi. Hjálpumst að og vinnum okkur í gegnum þetta.

Mér datt þetta lag í hug því nú er tími hrösunar eftir harðasprett. Hlaupið var skotið af stað með mörgum tonnum af sprengiefni. Áramótin. Áramótaheitin. Nú átti að taka sig á. Og það hressilega. Svona í samræmi við upphafshvellinn. Allir hlaupa af stað sem aldrei fyrr. En það er erfitt að fóta sig á glerhálu og símyrkvaða janúarsvellinu. Flestum tekst þó að komast fyrstu metrana án teljandi áfalla. En svo fara menn að þreytast.

Febrúar kominn. Vegna gassaháttsins í byrjun fara margir að hrasa. Og hrasa illa. Vonleysi í kjölfarið. Ég get þetta aldrei. Fæ mér aðra sneið. Aðra rettu. Eða bara kökuna alla. Og pakkann með. Og svo aftur á morgun. Átakið er greinilega búið. Ég gafst upp.

Þetta er hættulegur tími. Hættulegt hugarástand. Nú reynir fyrst á töluverðan styrk. Eða kannski töluvert æðruleysi, það gæti gert gæfumuninn. Nauðsynlegt er að muna þetta: Allir hrasa! Misjafnlega oft. En á endanum hrasa allir. Hvað skal þá til bragðs taka?

Allir hafa einhvern tímann séð ungbarn í sínum tilraunum til manngangs. Það stendur upp. Dettur. Hvað þá? Sest það í volæði og barmar sér yfir grimmum örlögum heimsins? Öskrar út í tómið "Af hverju alltaf ég?". Slíkt myndi nú kannski gleðja foreldrana, enda bæri það merki um ótrúlega hraða og þróaða máltöku. Sorrí, útúrdúr. Nei, auðvitað stendur barnið bara aftur upp. Það gefst ekkert upp. Það dettur aftur. En stendur þá bara aftur upp. Einfalt, ekki satt? Markmiðið er að ná mannganginum allsæmilega. Svo barnið reynir. Þangað til. Frábært viðhorf. Þangað til.

Allir hrasa. En hrasið skiptir í raun litlu máli. Auðvitað reynir maður að forðast hrasið. En einhvern tímann kemur að því. En þá stendur maður aftur upp. Heldur áfram. Kannski af aðeins minni ákafa en áður. Slíkt er líka skynsamlegt, því flest þau markmið sem fólk setur sér um áramót má frekar líkja við langhlaup en spretthlaup. Það þarf að stilla hraðanum í hóf. Og svo heldur maður áfram. Þangað til kílóin eru farin. Þangað til löngunin er farin. Þangað til tekjurnar aukast. Þangað til.

Með þetta viðhorf að leiðarljósi er alltaf vonarneisti í augnsýn. Markmiðin munu nást á endanum. Ef maður bara stendur upp aftur. Og aftur. Þangað til.

Farið varlega í hálkunni.

Þangað til næst.


Meira D-vítamín

Þessar blessuðu flensuveirur eru útum allt, svo sem engin nýmæli að þær þrífist á peningaseðlum, nema það kannski hvað þær lifa lengi á peningaseðlum.

Hins vegar er magnað með Ísland að hér geisa að jafnaði hvað mestu flensu- og kveffaraldrar sem fyrirfinnast í heiminum. Það hvíslaði að mér doktor í næringarfræði að hluti ástæðunnar kann að vera fundinn.

Þannig er að nýjustu rannsóknir gefa það í sífellt meira mæli til kynna að D vítamín eigi hvað stærstan þátt í forvörnum fyrir svona pestum. Vitað er að við Íslendingar eigum erfiðara en margar aðrar þjóðir að fá nóg D vítamín vegna sólarleysis (þegar sólin skín á húðina framleiðis D vítamín). Þá sýndi rannsókn Lýðheilsustöðvar frá árinu 2002 fram á að Íslendingar fá að jafnaði of lítið D vítamín úr fæðunni, til að mynda var meðalneysla ungra kvenna einungis einn fimmti af ráðlögðum dagskammti og meðalneysla ungra karla einungis um einn þriðji af ráðlögðum dagskammti.

Sem sagt, meira D vítamín og losnum við þessar leiðindapestir. Það gerði ég alla vega.

Þó skal þess getið að D vítamín er eitt af þeim vítamínum sem er ekki vatnsleysanlegt og því þarf að gæta þess að fá ekki of mikið af því. Ég hef reyndar ekki heyrt af neinum sem var lagður inn á spítala vegna of stórs skammts af D vítamíni svo ég hef nú litlar áhyggjurWink


mbl.is Flensuveirur þrífast dögum saman á peningaseðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofþyngd er ekki útlitsgalli

Þriðjungur stöðugt í megrun og tölur sýna að tveir af hverjum þremur Bretum eru yfir kjörþyngd. Magnað. Það er þó mjög líklegt að þessi þriðjungur sem er í kjörþyngd er ekki sami þriðjungur og er alltaf í megrun. Sá þriðjungur sem er í kjörþyngd lifir að öllum líkindum bara heilbrigðari lífsstíl.

En eitthvað hlýtur að vera að. Alltaf í megrun og ekkert gengur. Reyndar er matarmenning Breta af svipuðum standard og viðskiptasiðferði íslenskra olíufélaga og kreditkortafyrirtækja, svo það er ekki að hjálpa þeim. Þótt skammtastærðirnar hjá þeim eigi nokkuð langt í land með að ná því sem gerist í Bandaríkjunum, þá má ekki búast við góðu hjá þjóð sem telur djúpsteiktan fisk og franskar, pylsur af hvers kyns tagi og bökur sem part af daglegu og eðlilegu mataræði.

Ég er reyndar á þeirri línu líkt og margir að það eigi að útrýma megrun. Auðvitað getur fólk þurft að sýna aðeins meira aðhald á einum tíma en öðrum, sérstaklega ef það hefur af einhverjum ástæðum bætt aðeins of mikið á sig. Það er margsannað að megrun sem slík er slæm hugmynd. Það er ekki til nein töfralausn sem þú notar í mánuð og ert "set for life" eftir það. Maður þarf að breyta mataræðinu, það er ekkert annað sem dugir. Fyrst þyrfti þó að bæta þekkingu og breyta hugarfari, þá er miklu minna mál að breyta mataræðinu í kjölfarið.

Hann má þó eiga það þessi þriðjungur Breta að hann er að reyna að gera eitthvað í sínum málum. Viljinn er fyrir hendi en líklega vantar þekkingu. Það er verra mál með þann hluta sem er ekkert að gera í sínum málum.

Ofþyngd er nefnilega ekki útlitsgalli, heldur ávísun á heilsufarsleysi og líkamlega vanlíðan af ýmsum toga, auk þess sem kviðfita er einfaldlega lífshættuleg.

Sjálfur er ég reyndar stöðugt í fegrun, en það er svo sem annað mál FootinMouth


mbl.is Þriðjungur stöðugt í megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskiljist eftir eigin geðþótta

Mér dettur alltaf foreldrar mínir í hug þegar ég les fréttir um að hófsöm neysla á hinu og þessu geri manni gott.

Fyrir nokkru síðan tókst mér loks að koma því inn hjá þeim að olía væri mun hollari en gamla góða smjerið.

Viti menn. Nú þegar þarf að nota fitu við t.d. steikingar og aðra eldamennsku hjá þeim þá er sko notuð olía. Og MIKIÐ af henni. Meira magn en var kannski nokkurn tímann notað af smjerinu.

Olían er svo holl, þú skilur!

KvÆ.


mbl.is Áfengi í hófi getur verið heilsusamlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilt þú hjálpa?

Ég fékk neðangreint skeyti frá barnahjálp ABC og fannst réttast að koma skilaboðunum áleiðis. Þau biðja um hjálp, skiljanlega, enda hræðilegt ástand sem þau búa við núna. 

Kæru stuðningsaðilar ABC barnahjálpar, Eins og þið eflaust vitið ríkir skelfilegt ástand í Nairobi í Kenya þar sem eitt ABC heimilið okkar er staðsett. Í fátækrahverfunum hefur fjöldi húsa verið brenndur og fólk misst allt sitt, fólk hefur verið innilokað á heimilum sínum matarlaust í marga daga, verslanir eru lokaðar og þær sem opna selja mat á uppsprengdu verði. Fjöldi kvenna með börn hafa leitað til ABC heimilisins eftir hjálp og er heimilið að fyllast af flóttafólki sem misst hefur heimili sín. Starfsfólk ABC reynir sitt besta til að hjálpa þessu fólki. 

Þórunn og Samuel komu heim frá Tansaníu í gær með fullan bíl af mat en þar sem þau gefa frá sér stóran hluta til matarlausra í fátækrahverfunum dugar hann skammt. Hún biður okkur að senda þeim pening til að kaupa mat til að geta hjálpað fleirum. 

Börnin á heimilinu hafa það gott þó þau séu hrædd. Starfsmennirnir hafa reynt að heimsækja fjölskyldur barnanna okkar sem búa í fátækrahverfunum til að færa þeim mat og aðstoða á annan hátt. ABC barnahjálp hefur ekki neinn varasjóð til að mæta svona ástandi og datt okkur því í hug að leita til ykkar um aðstoð. 

Þeir sem vilja hjálpa okkar mega gjarnan leggja pening inn á reikning ABC heimilisins í Kenya sem er í banka 1155-15-41415 kt. 6906881589.  

Með innilegu þakklæti ABC barnahjálp

 


mbl.is Ástandið í Nairobi versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ævar Þórólfsson
Ævar Þórólfsson
Nokkuð venjulegur maður sem reynir að vaxa og batna með hverjum degi...

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband