Færsluflokkur: Matur og drykkur
4.1.2008 | 01:49
Er bókhaldið í lagi?
"Ég sprikla eins og brjálæðingur en samt gerist ekkert!". Þetta heyrist nokkuð oft hjá fólki sem vill létta sig. Það tekur ræktina mjög alvarlega. Hreyfing er sögð eiga að létta mann. Því hlýtur að vera nóg að massa ræktina, sprikla bara pizzuna af sér.
Vandamálið er hins vegar stærra. Þetta gengur ekki upp. Í raun þarf ekki nema hina einföldustu grunnskólastærðfræði til að kolfella þessa hugsun. Jarða hana.
Auðvitað er hreyfing mikilvæg. Ekki misskilja mig. Hreyfing byggir upp þol og vöðva og er gríðarmikilvæg fyrir framtíðarþyngdarstjórnun. En ef markmiðið er að grennast töluvert á skömmum tíma hefur hreyfing takmörkuð áhrif. Svona 30% eða svo. Rannsóknir sýna að við þyngdarstjórnun má yfirleitt nefna skiptinguna 60-30-10. Þetta stendur fyrir að næring hefur 60% áhrif, hreyfing 30% og hvíld 10%. Svona um það bil. Auðvitað er þetta einstaklingsbundið eins og allt annað. En þetta er grófa myndin. Þarna sést því að þó maður taki ræktina alvarlega þá nær maður eingöngu 30% árangri. Þetta er töluverð einföldun, en það má líta á þetta svona.
En snúum okkur þá að grunnskólastærðfræðinni. Létt skokk í hálftíma á hlaupabretti brennir um 280 hitaeiningum. Svona um það bil, alla vega. Gefum okkur þessa tölu til einföldunar. Hvað ætli eitt Snickers, sem ágætis hluti þjóðarinnar leyfir sér í eftirrétt eftir hádegismat, sé margar hitaeiningar? Viti menn, 280 stykki. Hálftímaskokk jafnað við jörðu. Gott og vel, sá sem tekur skokkið og Snickers kemur út á jöfnu. Hann þyngist alla vega ekki. En takmark um grenningu næst seint. Þetta snýst bara um plús og mínus. Debet og kredit. Líkaminn heldur nákvæmt bókhald yfir þetta. Það versta er að það þarf að vinna svo mikið fyrir debetinu. Kreditið kemur mjög auðveldlega hins vegar. Lítum á nokkur dæmi:
Ein bjórdós = 150 hitaeiningar.
½ líter af kók = 225 hitaeiningar.
Tvær sneiðar af pizzu (stór pepperoni veisla frá Dominos) = 732 hitaeiningar.
Tvær sneiðar af pizzu (stór Hawaian frá Dominos) = 623 hitaeiningar.
Einn kjúklingabiti (bringa) frá KFC = 370 hitaeiningar.
Einn Big Mac = 590 hitaeiningar.
Einn lítill skammtur af frönskum á McDonalds = 249 hitaeiningar.
Einn poki af venjulegum kartöfluflögum (227 grömm) = 1242 hitaeiningar.
Og svo framvegis.
Og svo framvegis.
(Upplýsingar fengnar á www.nutritiondata.com)
Eins og sést er rosalega auðvelt að koma sér upp hressum kreditreikningi. Auðvitað borða fáir mikið af þessu á hverjum degi. Aðalatriðið er að þessi litlu mistök á hverjum degi, eitt Snickers hér, ein kók þar, nokkrar kartöfluflögur um kvöldið, bara smá kokteilsósa með fiskinum eða hvað það nú er, geta verið svo dýr.
Annað er mikilvægt að leggja áherslu á. Þetta snýst ekki bara um óhollustuna eins og dæmin að ofan gefa til kynna. Þetta snýst líka um venjulegan mat. Stundum er magnið af honum bara of mikið. Fá sér aftur á diskinn. Smá aukaskammtur af hrísgrjónum. Nartað á meðan maður eldar. Kreditið er fljótt að safnast upp. Aðeins of mikið kredit á hverjum degi safnast upp. Þeim mun meiri áhersla þarf að vera á debetið. En það er ekki hægt að skokka allan daginn.
Algeng mistök eru að halda að þegar maður byrjar að æfa þá getur maður leyft sér meira í matarmálum. Þetta gengur ekki upp ef markmiðið er að grennast. Ef inntöku, sem hafði áður leitt til þyngdaraukningar, er haldið stöðugri þegar byrjað er að æfa þá er hægt að grennast. Mun betra er þó að breyta inntöku, þá gengur þetta hraðar. Það gengur hins vegar lítið ef maður eykur inntöku.
You are what you eat. Þannig er það bara. Borðaðu mikið og þú verður mikill. Borðaðu minna og verður minni. Þetta snýst allt um að hafa jafnvægi í bókhaldinu.
Er bókhaldið í lagi?
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 02:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)