14.1.2008 | 09:45
Ofþyngd er ekki útlitsgalli
Þriðjungur stöðugt í megrun og tölur sýna að tveir af hverjum þremur Bretum eru yfir kjörþyngd. Magnað. Það er þó mjög líklegt að þessi þriðjungur sem er í kjörþyngd er ekki sami þriðjungur og er alltaf í megrun. Sá þriðjungur sem er í kjörþyngd lifir að öllum líkindum bara heilbrigðari lífsstíl.
En eitthvað hlýtur að vera að. Alltaf í megrun og ekkert gengur. Reyndar er matarmenning Breta af svipuðum standard og viðskiptasiðferði íslenskra olíufélaga og kreditkortafyrirtækja, svo það er ekki að hjálpa þeim. Þótt skammtastærðirnar hjá þeim eigi nokkuð langt í land með að ná því sem gerist í Bandaríkjunum, þá má ekki búast við góðu hjá þjóð sem telur djúpsteiktan fisk og franskar, pylsur af hvers kyns tagi og bökur sem part af daglegu og eðlilegu mataræði.
Ég er reyndar á þeirri línu líkt og margir að það eigi að útrýma megrun. Auðvitað getur fólk þurft að sýna aðeins meira aðhald á einum tíma en öðrum, sérstaklega ef það hefur af einhverjum ástæðum bætt aðeins of mikið á sig. Það er margsannað að megrun sem slík er slæm hugmynd. Það er ekki til nein töfralausn sem þú notar í mánuð og ert "set for life" eftir það. Maður þarf að breyta mataræðinu, það er ekkert annað sem dugir. Fyrst þyrfti þó að bæta þekkingu og breyta hugarfari, þá er miklu minna mál að breyta mataræðinu í kjölfarið.
Hann má þó eiga það þessi þriðjungur Breta að hann er að reyna að gera eitthvað í sínum málum. Viljinn er fyrir hendi en líklega vantar þekkingu. Það er verra mál með þann hluta sem er ekkert að gera í sínum málum.
Ofþyngd er nefnilega ekki útlitsgalli, heldur ávísun á heilsufarsleysi og líkamlega vanlíðan af ýmsum toga, auk þess sem kviðfita er einfaldlega lífshættuleg.
Sjálfur er ég reyndar stöðugt í fegrun, en það er svo sem annað mál
Þriðjungur stöðugt í megrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.