Leita í fréttum mbl.is

En ég hljóp svo hratt...

...að ég hrasað'og datt. Villi Vill. Gott lag. Góður texti. Sorglegur texti sem kemur samt með vonarneista í síðasta erindi. Hjálpumst að og vinnum okkur í gegnum þetta.

Mér datt þetta lag í hug því nú er tími hrösunar eftir harðasprett. Hlaupið var skotið af stað með mörgum tonnum af sprengiefni. Áramótin. Áramótaheitin. Nú átti að taka sig á. Og það hressilega. Svona í samræmi við upphafshvellinn. Allir hlaupa af stað sem aldrei fyrr. En það er erfitt að fóta sig á glerhálu og símyrkvaða janúarsvellinu. Flestum tekst þó að komast fyrstu metrana án teljandi áfalla. En svo fara menn að þreytast.

Febrúar kominn. Vegna gassaháttsins í byrjun fara margir að hrasa. Og hrasa illa. Vonleysi í kjölfarið. Ég get þetta aldrei. Fæ mér aðra sneið. Aðra rettu. Eða bara kökuna alla. Og pakkann með. Og svo aftur á morgun. Átakið er greinilega búið. Ég gafst upp.

Þetta er hættulegur tími. Hættulegt hugarástand. Nú reynir fyrst á töluverðan styrk. Eða kannski töluvert æðruleysi, það gæti gert gæfumuninn. Nauðsynlegt er að muna þetta: Allir hrasa! Misjafnlega oft. En á endanum hrasa allir. Hvað skal þá til bragðs taka?

Allir hafa einhvern tímann séð ungbarn í sínum tilraunum til manngangs. Það stendur upp. Dettur. Hvað þá? Sest það í volæði og barmar sér yfir grimmum örlögum heimsins? Öskrar út í tómið "Af hverju alltaf ég?". Slíkt myndi nú kannski gleðja foreldrana, enda bæri það merki um ótrúlega hraða og þróaða máltöku. Sorrí, útúrdúr. Nei, auðvitað stendur barnið bara aftur upp. Það gefst ekkert upp. Það dettur aftur. En stendur þá bara aftur upp. Einfalt, ekki satt? Markmiðið er að ná mannganginum allsæmilega. Svo barnið reynir. Þangað til. Frábært viðhorf. Þangað til.

Allir hrasa. En hrasið skiptir í raun litlu máli. Auðvitað reynir maður að forðast hrasið. En einhvern tímann kemur að því. En þá stendur maður aftur upp. Heldur áfram. Kannski af aðeins minni ákafa en áður. Slíkt er líka skynsamlegt, því flest þau markmið sem fólk setur sér um áramót má frekar líkja við langhlaup en spretthlaup. Það þarf að stilla hraðanum í hóf. Og svo heldur maður áfram. Þangað til kílóin eru farin. Þangað til löngunin er farin. Þangað til tekjurnar aukast. Þangað til.

Með þetta viðhorf að leiðarljósi er alltaf vonarneisti í augnsýn. Markmiðin munu nást á endanum. Ef maður bara stendur upp aftur. Og aftur. Þangað til.

Farið varlega í hálkunni.

Þangað til næst.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ævar Þórólfsson
Ævar Þórólfsson
Nokkuð venjulegur maður sem reynir að vaxa og batna með hverjum degi...

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband