Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Meira D-vítamín

Þessar blessuðu flensuveirur eru útum allt, svo sem engin nýmæli að þær þrífist á peningaseðlum, nema það kannski hvað þær lifa lengi á peningaseðlum.

Hins vegar er magnað með Ísland að hér geisa að jafnaði hvað mestu flensu- og kveffaraldrar sem fyrirfinnast í heiminum. Það hvíslaði að mér doktor í næringarfræði að hluti ástæðunnar kann að vera fundinn.

Þannig er að nýjustu rannsóknir gefa það í sífellt meira mæli til kynna að D vítamín eigi hvað stærstan þátt í forvörnum fyrir svona pestum. Vitað er að við Íslendingar eigum erfiðara en margar aðrar þjóðir að fá nóg D vítamín vegna sólarleysis (þegar sólin skín á húðina framleiðis D vítamín). Þá sýndi rannsókn Lýðheilsustöðvar frá árinu 2002 fram á að Íslendingar fá að jafnaði of lítið D vítamín úr fæðunni, til að mynda var meðalneysla ungra kvenna einungis einn fimmti af ráðlögðum dagskammti og meðalneysla ungra karla einungis um einn þriðji af ráðlögðum dagskammti.

Sem sagt, meira D vítamín og losnum við þessar leiðindapestir. Það gerði ég alla vega.

Þó skal þess getið að D vítamín er eitt af þeim vítamínum sem er ekki vatnsleysanlegt og því þarf að gæta þess að fá ekki of mikið af því. Ég hef reyndar ekki heyrt af neinum sem var lagður inn á spítala vegna of stórs skammts af D vítamíni svo ég hef nú litlar áhyggjurWink


mbl.is Flensuveirur þrífast dögum saman á peningaseðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofþyngd er ekki útlitsgalli

Þriðjungur stöðugt í megrun og tölur sýna að tveir af hverjum þremur Bretum eru yfir kjörþyngd. Magnað. Það er þó mjög líklegt að þessi þriðjungur sem er í kjörþyngd er ekki sami þriðjungur og er alltaf í megrun. Sá þriðjungur sem er í kjörþyngd lifir að öllum líkindum bara heilbrigðari lífsstíl.

En eitthvað hlýtur að vera að. Alltaf í megrun og ekkert gengur. Reyndar er matarmenning Breta af svipuðum standard og viðskiptasiðferði íslenskra olíufélaga og kreditkortafyrirtækja, svo það er ekki að hjálpa þeim. Þótt skammtastærðirnar hjá þeim eigi nokkuð langt í land með að ná því sem gerist í Bandaríkjunum, þá má ekki búast við góðu hjá þjóð sem telur djúpsteiktan fisk og franskar, pylsur af hvers kyns tagi og bökur sem part af daglegu og eðlilegu mataræði.

Ég er reyndar á þeirri línu líkt og margir að það eigi að útrýma megrun. Auðvitað getur fólk þurft að sýna aðeins meira aðhald á einum tíma en öðrum, sérstaklega ef það hefur af einhverjum ástæðum bætt aðeins of mikið á sig. Það er margsannað að megrun sem slík er slæm hugmynd. Það er ekki til nein töfralausn sem þú notar í mánuð og ert "set for life" eftir það. Maður þarf að breyta mataræðinu, það er ekkert annað sem dugir. Fyrst þyrfti þó að bæta þekkingu og breyta hugarfari, þá er miklu minna mál að breyta mataræðinu í kjölfarið.

Hann má þó eiga það þessi þriðjungur Breta að hann er að reyna að gera eitthvað í sínum málum. Viljinn er fyrir hendi en líklega vantar þekkingu. Það er verra mál með þann hluta sem er ekkert að gera í sínum málum.

Ofþyngd er nefnilega ekki útlitsgalli, heldur ávísun á heilsufarsleysi og líkamlega vanlíðan af ýmsum toga, auk þess sem kviðfita er einfaldlega lífshættuleg.

Sjálfur er ég reyndar stöðugt í fegrun, en það er svo sem annað mál FootinMouth


mbl.is Þriðjungur stöðugt í megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskiljist eftir eigin geðþótta

Mér dettur alltaf foreldrar mínir í hug þegar ég les fréttir um að hófsöm neysla á hinu og þessu geri manni gott.

Fyrir nokkru síðan tókst mér loks að koma því inn hjá þeim að olía væri mun hollari en gamla góða smjerið.

Viti menn. Nú þegar þarf að nota fitu við t.d. steikingar og aðra eldamennsku hjá þeim þá er sko notuð olía. Og MIKIÐ af henni. Meira magn en var kannski nokkurn tímann notað af smjerinu.

Olían er svo holl, þú skilur!

KvÆ.


mbl.is Áfengi í hófi getur verið heilsusamlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangur núllpunktur?

Flestar fréttir af rannsóknum af þessu tagi innihalda skilaboð á við "ef þú gerir hitt eða þetta getur þú lengt líf þitt". Ég hef í nokkurn tíma velt því fyrir mér hvar menn setja þennan núllpunkt sem miðað er við, það er, miðað við hvaða áætlaða árafjölda getur maður bætt við öllum þessum árum?

Í flestum tilfellum virðist núllpunkturinn vera worst case scenario, þ.e. ef maður gerði allt á rangan veg miðað við þau atriði sem voru rannsökuð.  Í þessu tilfelli var talað um tölurnar 60 ára og 74 ára, sem sagt sextugur maður sem lifði óheilbrigðum lífsstíl væri jafn líklegur til að deyja og 74 ára maður sem lifði heilbrigðum lífsstíl. Greinilegt er að þarna er óheilbrigði lífsstíllinn núllpunkturinn eða normið sem þú getur svo bætt við (alla vega miðað við fyrirsögn og innihald fréttar, hef svo sem ekki lesið rannsóknina sjálfa).

En eru þetta ekki röng skilaboð? Það er gert ráð fyrir að normið sé óheilbrigði lífsstíllinn (sem er þó kannski raunin) og ef maður bara nennti að breyta smotteríi þá gæti maður bætt einhverjum árum við.

Þrátt fyrir að sumir þræti fyrir það þá er það staðreynd að síendurtekin skilaboð breyta hugarfari. Gætu því síendurtekin skilaboð um að óheilbrigði sé normið verið að skaða ástandið varðandi offitu-/heilsuleysisfaraldurinn? Ég efast samt ekki um að tilgangurinn sé góður og upplýsingunum ætlað að fræða fólk og benda því á áhrif óheilbrigðs lífstíls.

Ég hugsa þetta á hinn háttinn, þ.e. ég veit að ég á möguleika á að verða fjörgamall, svona að öllu óbreyttu, en ef ég dett inn í óheilbrigðan lífsstíl þá sé ég að minnka lífslíkurnar. Reyndar væri erfitt að koma slíkum skilaboðum skikkanlega til skila. "Borðaðu franskar í dag og taktu tvo daga af" ekki beint uppörvandi skilaboð, en kannski áhrifaríkari. Sívaxandi tölur um offitu, veikindi og kostnað við heilbrigðiskerfi benda alla vega til þess að hin skilaboðin eru litlu að skila.

KvÆ.


mbl.is 14 árum lengra líf með heilbrigðum lífsstíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær borgar þú tollinn?

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt og skemmtilegt. Var nú að hlusta á mann að nafni Zig Ziglar. Frábær punktur sem hann kom með varðandi hreyfingu og hugarfar.

Margir hugsa þannig að hreyfing er ákveðinn tollur sem þarf að borga til að öðlast betri heilsu (á ensku er talað um að pay the price, svo þið áttið ykkur á hvað ég er að fara með þessum tolli). Þetta er kolrangur hugsunarháttur.

Tollinn borgar maður fyrst ef maður hreyfir sig ekki. Þá kemur tollur í formi heilsuleysis, veikinda, offitu, minna sjálfsáliti og öllum þeim pakka.

Hreyfing er því ekki kvöð. Hreyfing er bara eitthvað sem þú gerir til að njóta afraksturs af. Þá færðu betri heilsu, minni veikindi, meira sjálfsálit o.s.frv.

Hreyfum okkur því reglulega og nærum okkur vel svo við sleppum við að borga tollinn.

Tollstjórinn.


Dæmisaga um varkáran mann

Oft er nauðsynlegt að taka smá áhættu. Alla vega ekki lifa endalaust í örygginu. Öryggið getur svo sem verið voða þægilegt, en það gefur okkur bara ekki mikið. Það gefur okkur hvorki lífsreynslu né þær tekjur sem við myndum vilja hafa né þann lífsstíl sem við myndum vilja lifa.

Auðvitað má ekki endalaust kasta allri varúð út í veður og vind, en oft er nauðsynlegt að stíga aðeins út úr þessum þægindahring sem margir hafa mótað í kringum sig. Gera eitthvað sem lætur mann finna fyrir lífinu.

Af þessu tilefni hendi ég hér inn smá dæmisögu í hálfbundnu máli. Þessi dæmisaga er eftir Denis nokkurn Waitley, doktor í sálfræði, en hann er mikill snillingur sem getur veitt manni gríðarlegan innblástur. Enda hefði hann ekki verið motivational coach eða hugarfarsþjálfari fyrir bandarísku Ólympíufarana til fjölda ára nema eitthvað væri í hann spunnið.

Alla vega, hér er dæmisagan. Ég klambraði henni yfir á íslensku fyrir þá sem eru ekki það sleipir í enskunni.

A parable of a cautious man

There was a very cautious man who rarely laughed or cried
He never won, he never lost, he never really tried
Then one day he passed away his insurance was denied
They claimed because he never lived he never really died

Dæmisaga um varkáran mann

Eitt sinn varkár maður var sem sjaldan hló eða grét
Tók aldrei séns, misst’aldrei neitt, sér ekkert eftirlét
Einn dag hann gaf upp öndina, en bætur enginn sá
Þeir sögðu fyrst hann lifð’aldrei, hann gæt’ei fallið frá

Svo á Denis Waitley líka þessa frábæru setningu: Risk taking is security making! Sem sagt, ef maður vill alvöru öryggi, t.d. fjárhagslegt, þá er nauðsynlegt að taka smá áhættu.

Kv.
Æ(Ó?)var-kár...


Vilt þú hjálpa?

Ég fékk neðangreint skeyti frá barnahjálp ABC og fannst réttast að koma skilaboðunum áleiðis. Þau biðja um hjálp, skiljanlega, enda hræðilegt ástand sem þau búa við núna. 

Kæru stuðningsaðilar ABC barnahjálpar, Eins og þið eflaust vitið ríkir skelfilegt ástand í Nairobi í Kenya þar sem eitt ABC heimilið okkar er staðsett. Í fátækrahverfunum hefur fjöldi húsa verið brenndur og fólk misst allt sitt, fólk hefur verið innilokað á heimilum sínum matarlaust í marga daga, verslanir eru lokaðar og þær sem opna selja mat á uppsprengdu verði. Fjöldi kvenna með börn hafa leitað til ABC heimilisins eftir hjálp og er heimilið að fyllast af flóttafólki sem misst hefur heimili sín. Starfsfólk ABC reynir sitt besta til að hjálpa þessu fólki. 

Þórunn og Samuel komu heim frá Tansaníu í gær með fullan bíl af mat en þar sem þau gefa frá sér stóran hluta til matarlausra í fátækrahverfunum dugar hann skammt. Hún biður okkur að senda þeim pening til að kaupa mat til að geta hjálpað fleirum. 

Börnin á heimilinu hafa það gott þó þau séu hrædd. Starfsmennirnir hafa reynt að heimsækja fjölskyldur barnanna okkar sem búa í fátækrahverfunum til að færa þeim mat og aðstoða á annan hátt. ABC barnahjálp hefur ekki neinn varasjóð til að mæta svona ástandi og datt okkur því í hug að leita til ykkar um aðstoð. 

Þeir sem vilja hjálpa okkar mega gjarnan leggja pening inn á reikning ABC heimilisins í Kenya sem er í banka 1155-15-41415 kt. 6906881589.  

Með innilegu þakklæti ABC barnahjálp

 


mbl.is Ástandið í Nairobi versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er bókhaldið í lagi?

"Ég sprikla eins og brjálæðingur en samt gerist ekkert!". Þetta heyrist nokkuð oft hjá fólki sem vill létta sig. Það tekur ræktina mjög alvarlega. Hreyfing er sögð eiga að létta mann. Því hlýtur að vera nóg að massa ræktina, sprikla bara pizzuna af sér.

Vandamálið er hins vegar stærra. Þetta gengur ekki upp. Í raun þarf ekki nema hina einföldustu grunnskólastærðfræði til að kolfella þessa hugsun. Jarða hana.

Auðvitað er hreyfing mikilvæg. Ekki misskilja mig. Hreyfing byggir upp þol og vöðva og er gríðarmikilvæg fyrir framtíðarþyngdarstjórnun. En ef markmiðið er að grennast töluvert á skömmum tíma hefur hreyfing takmörkuð áhrif. Svona 30% eða svo. Rannsóknir sýna að við þyngdarstjórnun má yfirleitt nefna skiptinguna 60-30-10. Þetta stendur fyrir að næring hefur 60% áhrif, hreyfing 30% og hvíld 10%. Svona um það bil. Auðvitað er þetta einstaklingsbundið eins og allt annað. En þetta er grófa myndin. Þarna sést því að þó maður taki ræktina alvarlega þá nær maður eingöngu 30% árangri. Þetta er töluverð einföldun, en það má líta á þetta svona.

En snúum okkur þá að grunnskólastærðfræðinni. Létt skokk í hálftíma á hlaupabretti brennir um 280 hitaeiningum. Svona um það bil, alla vega. Gefum okkur þessa tölu til einföldunar. Hvað ætli eitt Snickers, sem ágætis hluti þjóðarinnar leyfir sér í eftirrétt eftir hádegismat, sé margar hitaeiningar? Viti menn, 280 stykki. Hálftímaskokk jafnað við jörðu. Gott og vel, sá sem tekur skokkið og Snickers kemur út á jöfnu. Hann þyngist alla vega ekki. En takmark um grenningu næst seint. Þetta snýst bara um plús og mínus. Debet og kredit. Líkaminn heldur nákvæmt bókhald yfir þetta. Það versta er að það þarf að vinna svo mikið fyrir debetinu. Kreditið kemur mjög auðveldlega hins vegar. Lítum á nokkur dæmi:

Ein bjórdós = 150 hitaeiningar.

½ líter af kók = 225 hitaeiningar.

Tvær sneiðar af pizzu (stór pepperoni veisla frá Dominos) = 732 hitaeiningar.

Tvær sneiðar af pizzu (stór Hawaian frá Dominos) = 623 hitaeiningar.

Einn kjúklingabiti (bringa) frá KFC = 370 hitaeiningar.

Einn Big Mac = 590 hitaeiningar.

Einn lítill skammtur af frönskum á McDonalds = 249 hitaeiningar.

Einn poki af venjulegum kartöfluflögum (227 grömm) = 1242 hitaeiningar.

Og svo framvegis.

Og svo framvegis.

(Upplýsingar fengnar á www.nutritiondata.com)

Eins og sést er rosalega auðvelt að koma sér upp hressum kreditreikningi. Auðvitað borða fáir mikið af þessu á hverjum degi. Aðalatriðið er að þessi litlu mistök á hverjum degi, eitt Snickers hér, ein kók þar, nokkrar kartöfluflögur um kvöldið, bara smá kokteilsósa með fiskinum eða hvað það nú er, geta verið svo dýr.

Annað er mikilvægt að leggja áherslu á. Þetta snýst ekki bara um óhollustuna eins og dæmin að ofan gefa til kynna. Þetta snýst líka um venjulegan mat. Stundum er magnið af honum bara of mikið. Fá sér aftur á diskinn. Smá aukaskammtur af hrísgrjónum. Nartað á meðan maður eldar. Kreditið er fljótt að safnast upp. Aðeins of mikið kredit á hverjum degi safnast upp. Þeim mun meiri áhersla þarf að vera á debetið. En það er ekki hægt að skokka allan daginn.

Algeng mistök eru að halda að þegar maður byrjar að æfa þá getur maður leyft sér meira í matarmálum. Þetta gengur ekki upp ef markmiðið er að grennast. Ef inntöku, sem hafði áður leitt til þyngdaraukningar, er haldið stöðugri þegar byrjað er að æfa þá er hægt að grennast. Mun betra er þó að breyta inntöku, þá gengur þetta hraðar. Það gengur hins vegar lítið ef maður eykur inntöku.

You are what you eat. Þannig er það bara. Borðaðu mikið og þú verður mikill. Borðaðu minna og verður minni. Þetta snýst allt um að hafa jafnvægi í bókhaldinu.

Er bókhaldið í lagi?


Höfundur

Ævar Þórólfsson
Ævar Þórólfsson
Nokkuð venjulegur maður sem reynir að vaxa og batna með hverjum degi...

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband